Fara í innihald

Hinrik Hansen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hinrik Hansen eða Hendrik Hansen (174811. október 1802) var Dani sem fluttist til Íslands á síðari hluta 18. aldar. Hann var kaupmaður á Básendum í Hvalsnessókn. Básendar voru á Rosmhvalanesi rétt við Hafnir og hafði þar verið verslunarstaður frá lokum 15. aldar.

Hinrik var assistent við verslunina í Örfirisey árið 1776 og bjó þá í Stöðlakoti í Reykjavík. Síðar fluttist hann suður á Básenda og keypti kóngsverslunina þar. Hann hafði töluvert umleikis og á Básendum átti hann sölubúð, íbúðarhús, tvö vörugeymsluhús, gripahús og torfbæ. Einnig átti hann sex báta sem hann gerði út.

Sjávarflóðið

[breyta | breyta frumkóða]

Hann missti aleiguna í miklu sjávarflóði, Básendaflóðinu, sem varð aðfaranótt 9. janúar 1799, þegar allar byggingar á Básendum eyðilögðust eða skemmdust svo að þær voru ekki endurbyggðar. Flúði fjölskyldan fyrst upp á loft í íbúðarhúsinu en þegar Hinrik sá að það mundi ekki duga braut hann glugga og skriðu þau þar út, fáklædd, og komust í fjósið, sem stóð ögn hærra. Þegar hún fór að brotna hröktust þau í hlöðuna en urðu einnig að flýja þaðan og komust við illan leik að hjáleigunni Loddu hjá Stafnesi.

Íbúum í torfbænum tókst að rjúfa gat á þekjuna og komast út en ein kona drukknaði; hún var 79 ára og mjög lasburða. Af bænum var ekki annað eftir um morguninn en grjóthrúga.

Byggð á Básendum lagðist niður fyrir fullt og allt og Hinrik flutti með fjölskyldu sína til Keflavíkur. Hann bjó þar þegar manntalið 1801 var tekið en dó ári síðar.

Kona Hinriks (g. 1. nóvember 1774) var Sigríður Sigurðardóttir (1761 - 1813) frá Götuhúsum í Reykjavík. Börn þeirra voru Hans Símon Hansen (1779), Pétur Hansen (1785), líklega beykir í Ullarstofunni í Reykjavík 1816, Símon Hansen (1789 - 1847), María Elísabet Hansen (1791) og Friðrik Hansen (1794 - 1836). Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur eftir lát Hinriks og voru bræðurnir jafnan kallaðir Básendabræður.

  • „Básendaflóðið. Morgunblaðið, 3. október 1971“.
  • Kb. Hvalsnes. Gull., 1801, Lyfjafr. 191, Vík. VI. 75, Kb. Reykjavík, Bólstaðir