Fara í innihald

Kvensöðull

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hellusöðull frá 1682. Hellusöðull var glæsilegasta afbrigði af sveifarsöðlum
Íslenskir kvensöðlar (sveifarsöðlar) í Skógarsafni

Kvensöðull er sérstök tegund af hnakk eða söðli sem ætlaður var konum sem ferðuðust á hestbaki. Kvensöðlar voru þannig að konan sem reið hestinum sat ekki klofvega heldur út á hlið,oftast til vinstri. Tíska í kvensöðlum fylgdi eftir tísku í venjulegum söðlum og hnökkum. Á íslenskum miðaldamálverkum má sjá standsöðla en það eru söðlar sem líkjast djúpum stólum með bríkum að framan og aftan. Konur riðu þá í sveifarsöðli en þar var eins konar stóll, breið sveif milli hárra bríka og fótaþjöl fyrir báða fætur. Slíkir söðlar voru oft mikil listasmíð. Þess er getið að Guðbrandur Þorláksson biskup gaf konu sinni Halldóru Árnadóttur söðul í morgungjöf árið 1572. Hellusöðull var glæsilegasta afbrigði af sveifarsöðlum en það var söðull sem var allur klæddur látúni með skreytingum. Sveifarsöðlar voru algengir fram á miðja 19. öld en þegar iðnlærðir söðlasmiðir taka við söðlasmíð þá breytast söðlar í hnakka að evrópskri fyrirmynd. Kvensöðlar breytast einnig mikið og þá þannig að söðulsveifin er mjókkuð og klædd leðri og er mun neðar en á hinum fornu sveifarsöðlum og er nú kölluð söðulbogi. Bríkurnar hverfa og í staðinn kemur skraut að aftan sem söðulbogi kom úr en hann var svo festur við söðulnef að framan. Dýnan var stoppuð með togi eða hrosshárum og fest undir söðulinn. Við lok 19. aldar varð enskur klakksöðull alsráðandi en í slíkum söðli er klakkur við söðulnef til að hvíla annan fótinn á. Kona í slíkum söðli gat þá snúið sér og stýrt hestinum betur. Slíkan klakksöðul notuðu margar konur fram yfir 1930 en einnig var algengt upp úr aldamótum 1900 að konur notuðu venjulega hnakka.