Eldspýta
Eldspýta er lítil viðarspýta með eldfimu efni á öðrum endanum sem er notuð til að kveikja eld, t.d. til að láta loga á kerti, í sígarettu eða öðru. Eldspýtur flokkast til eldfæra, rétt eins og kveikjari, eldjárn og bragðalur. Fyrstu eldspýturnar sem fluttust til Íslands komu seint á 19. öld og voru seldar í litlum renndum trébaukum.
Yfirleitt eru eldspýtur seldar í stokk (þ.e. eldspýtustokk) eða eldspýtnabréfum, en hinar síðarnefndu eru oftar en ekki gerðar úr þykkum pappír. Þegar eldspýta er dregin yfir ákveðið yfirborð er það núningskrafturinn sem myndar varma sem kveikir loga á eldenda spýtunnar. Sá endi inniheldur yfirleitt annaðhvort fosfór eða eitthvert efnasamband hans, auk matarlíms sem virkar sem bindiefni. Til eru tvær aðaltegundir eldspýtna: þær sem kviknar á þegar þeim er skrunað eftir hvaða grófu yfirborði sem er og svo þær sem skrunað er upp við ákveðið efnafræðilegt yfirborð.
Talið er að Martialis skáld, sem upp var á tímum Rómaveldis hafi nefnt eldspýtur í ritum sínum, en það voru eldspýtur sem innihéldu brennistein. Forverar nútímaeldspýtunnar voru litlar spýtur úr furuviði, lagðar brennisteini og voru fundnar upp í Kína árið 577 e.Kr. Fyrsta sjálfkviknandi eldspýtan var aftur á móti fundin upp árið 1805, en það gerði aðstoðarmaður Louis Jacques Thénard prófessors. Endi hennar innihélt blöndu af kalíumklórati, fosfóri, sykri og gúmmí. Kveikt var á þeim með því að dýfa þeim í brennisteinssýru í asbestflösku. Eldspýtur þessar voru þó dýrar og hættulegar, þannig voru þær aldrei mjög vinsælar.
Fyrsta „núningseldspýtan“ var fundin upp árið 1826 af enska efnafræðingnum John Walker. Hann uppgötvaði að hægt væri að kveikja í blöndu af antimoni, kalíumklórati, gúmmí og mjölva með því að draga því í föstu formi eftir grófu yfirborði. Þessum eldspýtum fylgdu þó ýmis vandamál, m.a. ofsalegt efnahvarf og óþægileg lykt þegar kveikt var í þeim. Stundum kviknaði líka á þessum eldspýtum með sprengingu sem varpaði neistum í allar áttir.
Þegar farið var að framleiða eldspýtur með fosfór þá komu fram ýmsir alvarlegir atvinnusjúkdómar hjá þeim sem unnu við eldspýtugerðina eins og fosfórkjálki (e. phossy jaw) og aðrir beinasjúkdómar. Það var svo mikill eitraður hvítur fosfór í einum eldspýtnastokk að það nægði til að drepa manneskju.Það varð því algengt að fólk framdi sjálfsmorð með að gleypa haus á eldspýtu. Fyrsta skýrslan um dauðsföll af völdum fosfóreldspýtna koma fram í skýrslu árið 1845. Verkfall skall á árið 1888 í eldspýtnaverksmiðju Bryant & May og beindist það að að heilsutjóni af völdum hvíts fosfórs. Aðgerðasinninn Annie Besant birti grein í vikuriti sínu "The Link" þann 23. júní 1888. Settur var upp verkfallssjóður og nokkur tímarit efndu til samskota.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Match“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. desember 2010.
- „Hvenær var eldspýtan fundin upp?“. Vísindavefurinn.
- Eldspýtur, Æskan, 8.-9. Tölublað (01.08.1937), Blaðsíða 84