Emma Goldman
Emma Goldman (27. júní 1869 – 14. maí 1940), kölluð „rauða Emma“, var stjórnleysingi frá Kaunas í Litháen, sem var þekkt fyrir skrif sín, ræður og ævintýralegt lífshlaup. Hún flutti til New York í Bandaríkjunum sautján ára gömul og gerðist fylgismaður Johann Most og hugmyndarinnar um áróðursgildi hinnar drýgðu dáðar. Í New York kynntist hún stjórnleysingjanum Alexander Berkman og þau gerðust elskendur og samstarfsmenn. 1906 hófu þau útgáfu tímaritsins Mother Earth sem var skrifað í anda stjórnlausrar jafnréttishyggju. Þrisvar sinnum lenti hún í fangelsi vegna skoðana sinna og aðildar að aðgerðum stjórnleysingja. Þeim Berkman var síðar báðum vísað brott (ásamt mörgum fleiri róttækum innflytjendum) til Rússlands 1919. Þar varð hún vitni að Rússnesku byltingunni og varð fyrir miklum vonbrigðum með framferði bolsévika, einkum í beitingu hervalds gegn sjóliðunum í Kronstadt 1921. Tveimur árum síðar fluttu þau Berkman bæði til Suður-Frakklands. 1936 tók hún þátt í spænsku borgarastyrjöldinni og lést að lokum í Torontó í Kanada.