Guðmundur gríss Ámundason
Guðmundur gríss Ámundason (d. 22. febrúar 1210) var íslenskur höfðingi á 12. öld. Hann var allsherjargoði og prestur á Þingvöllum og hefur sennilega verið af ætt Ingólfs Arnarsonar þótt ekki sé vitað hvernig sú ættrakning er. Bróðir hans var Magnús, faðir Árna óreiðu Magnússonar, goðorðsmanns í Brautarholti og Saurbæ á Kjalarnesi. Guðmundur var virtur og vinsæll höfðingi og var sagt um hann að hann hefði fleira veitt fyrir guðs sakir en flestir menn aðrir. Hann lét síðar frá sér allar eigur sínar og gerðist munkur.
Kona Guðmundar var Solveig (um 1151 – 1193), dóttir Jóns Loftssonar. Dætur hans hétu báðar Þóra og þóttu bestu kvenkostir á Íslandi. Þóra eldri giftist Jóni Sigmundssyni af ætt Svínfellinga og var sonur þeirra Ormur Svínfellingur. Þóra yngri giftist Þorvaldi Gissurarsyni; þeirra sonur var Gissur Þorvaldsson. Synir Guðmundar voru Magnús góði, sem kjörinn var Skálholtsbiskup 1236 en fékk ekki vígslu, og Þorlákur, faðir Staða-Árna Þorlákssonar biskups.