Alþjóðasiglingamálastofnunin
Alþjóðasiglingamálastofnunin International Maritime Organization | |
---|---|
Aðildarríki árið 2018: Aðildarríki Aukaaðild | |
Skammstöfun | IMO |
Stofnun | 1948 |
Höfuðstöðvar | London, Bretlandi |
Aðalritari | Arsenio Dominguez (síðan 2024) |
Móðurfélag | Sameinuðu þjóðirnar |
Vefsíða | www.imo.org |
Alþjóðasiglingamálastofnunin (á ensku: International Maritime Organization, skammstafað IMO; áður nefnd Inter-Governmental Maritime Consultative Organization, eða IMCO) er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna sem fæst við sjóflutninga. Stofnuninni var komið á fót með alþjóðasamningi í Genf árið 1948 en hún hóf ekki starfsemi fyrr en 1959. Upphaflegt hlutverk stofnunarinnar var að uppfæra SOLAS-samþykktina um öryggi á sjó frá 1914. Höfuðstöðvar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar eru í London í Bretlandi. Aðildarríki stofnunarinnar eru 174 auk 3ja landa með aukaaðild (Færeyjar, Hong Kong og Maká). Ísland gerðist aðili að stofnuninni árið 1960.[1]
Hlutverk stofnunarinnar er að efla samstarf milli þjóða þegar kemur að samgöngum á hafi úti og draga úr mengun á sjó. Stofnunin þróar og viðheldur regluverki um sjóflutninga sem í dag nær yfir öryggismál sjófarenda, umhverfismál, lagaleg úrlausnarefni, siglingavernd og hagkvæmni sjóflutninga. Æðsta vald í málefnum stofnunarinnar er í höndum allsherjarþings aðildarríkja en rekstur hennar er í höndum fulltrúaráðs sem er kjörið af þinginu. Verkefni stofnunarinnar eru unnin í fimm tæknilegum nefndum sem studdar eru af undirnefndum.[2] Aðrar aðildarstofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa áheyrnaraðild að fundum stofnunarinnar. Aðrar stofnanir og félagasamtök geta einnig sótt um að gerast áheyrnarfulltrúar.[3]
Stofnunin rekur skrifstofur í höfuðstöðvum sínum í London sem skiptast í margar deildir. Aðalritari stofnunarinnar er Arsenio Dominguez frá Panama.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 1946 þótti mörgum þær bjóða upp á tækifæri til að samræma á alþjóðavettvangi reglugerðir um öryggi á sjó. Fram að þeim tíma höfðu reglur og staðlar um öryggi verið á ýmsa vegu hjá ólíkum löndum. Almennasti staðallinn í þessa veru var Alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) sem hafði verið gerður í kjölfar Titanic-slyssins árið 1914[4] en aldrei tekið formlega gildi sem alþjóðasamningur. Samningur um stofnun Ráðgefandi alþóðlegu siglingastofnunarinnar (Inter-Governmental Maritime Consultative Organization eða IMCO) var gerður í höfuðstöðvum Sþ í Genf árið 1948, en til að hann öðlaðist gildi varð minnst 21 land að gerast aðili að honum, þar af sjö með minnst milljón rúmlesta skipastól. Þetta gerðist ekki fyrr en 17. mars 1958. Fyrsta allsherjarþing stofnunarinnar var sett í janúar árið 1959.[5]
Við stofnun tók Alþjóðasiglingamálastofnunin við umsjón með SOLAS-samþykktinni og ýmsum öðrum reglugerðum, meðal annars Alþjóðlegu merkjabókinni og Alþjóðasamningi um að fyrirbyggja óhreinkun sjávar af völdum olíu (OILPOL) frá 1954. Fjölgun stórra olíuslysa varð til þess að margar ráðstefnur um olíumengun í hafi voru haldnar eftir miðja 20. öld. Torrey Canyon-slysið árið 1967, þar sem yfir 100 milljón lítrar af hráolíu láku í sjó rétt undan strönd Bretlands, varð til þess að fjöldi nýrra alþjóðasamninga um olíuslys leit dagsins ljós.[6] Meðal þessara samninga voru Alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar og Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum (MARPOL) frá 1973. Af sama tilefni var laganefnd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar komið á fót. MARPOL-samningurinn var samþykktur á alþjóðaráðstefnu sem stofnunin hélt árið 1973 en fékk ekki nægar undirskriftir til að öðlast formlegt gildi. Það gerðist ekki fyrr en eftir að viðbætur við samninginn voru samþykktar árið 1978. MARPOL-samningurinn öðlaðist formlegt gildi árið 1983. Sama ár, eða 1978, var STCW-samþykktin um menntun og þjálfun áhafna og vaktstöður skipa samþykkt og gekk í gildi árið 1984.[7] Með STCW voru öryggisþjálfun og réttindakröfur til áhafna skipa stöðluð víða um heim.
Stofnsamningurinn kvað á um að stofnunin væri staðsett í London, og fyrstu áratugina var hún í leiguhúsnæði hér og þar.[8] Ríkisstjórn Bretlands reisti núverandi höfuðstöðvar yfir stofnunina á Albert Embankment í hverfinu Lambeth í London. Byggingin var hönnuð af arkitektastofunni Douglas Marriott Worby & Robinson. Hún var opnuð af Elísabetu 2. drottningu 17. maí 1983.[9] Á framhlið byggingarinnar er sjö metra hár bronsskúlptúr eftir breska myndlistarmanninn Michael Sandle sem sýnir mann standa í stafni skips. Um svipað leyti, eða 1982, breytti stofnunin nafni sínu og tók „ráðgefandi“ út. Skammstöfunin á ensku heiti hennar varð eftir það IMO í stað IMCO. Árið 1983 stóð Alþjóðasiglingamálastofnunin að stofnun World Maritime University í Malmö í Svíþjóð.[10]
Í desember árið 2002 var endurskoðuð útgáfa SOLAS-samningsins gefin út. Þetta var í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 og árásar sjálfsmorðssprengjumanna á olíuflutningaskipið Limburg í Adenflóa í október 2002.[11] Hún fól í sér að nýr alþjóðlegur öryggiskóði, ISPS-kóðinn, var tekinn upp til að tryggja öryggi skipa og hafnaraðstöðu gegn smygli, hryðjuverkum, sjóránum og laumufarþegum meðal annars.
Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur talið það hlutverk sitt að þróa tæknilegar lausnir til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skipastólnum. Stofnunin hefur verið gagnrýnd fyrir hægagang í þeim málum í kjölfar loftslagsráðstefnunnar í París 2015 þar sem siglingar og flug voru undanskilin loftslagsmarkmiðunum.[12] BWM-samþykktin um kjölfestuvatn er annar umhverfissamningur sem stofnunin stóð að 2004 og tók gildi árið 2017.
Alþjóðasiglingamálstofnunin hefur, ásamt öðrum alþjóðastofnunum (Alþjóðasjómælingastofnuninni, Comité International Radio-Maritime, Alþjóðlegu vitamálastofnuninni, Alþjóðasiglingaráðinu, Baltic and International Maritime Council og Alþjóðaraftækninefndinni) staðið að mótun stefnu um rafræn leiðsögukerfi fyrir skip.[13] Stefnan var gefin út 2004 og tæknilegri útfærslu hennar lauk 2014.
Aðildarríki
[breyta | breyta frumkóða]Aðildarríki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar voru 174 talsins árið 2020; 173 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna auk Cooks-eyja. Þrjú lönd hafa aukaaðild að stofnuninni: Færeyjar, Hong Kong og Maká.[1] Til að gerast aðilar þurfa ríki að undirrita Samþykkt um Alþjóðasiglingamálastofnunina.
Fyrstu ríkin sem undirrituðu samþykktina voru Kanada (1948), Bretland (1949), Holland (1949), Mjanmar (1951), Belgía (1951), Írland (1951), Ástralía (1952), Frakkland (1952), Ísrael (1952), Argentína (1953), Haítí (1953), Dóminíska lýðveldið (1953), Hondúras (1954), Mexíkó (1954), Sviss (1955), Ekvador (1956) og Ítalía (1957). Nýjustu aðildarríkin árið 2018 voru Armenía og Nárú. Ísland gerðist aðili að stofnuninni árið 1960.
Flest aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem ekki eru aðilar að Alþjóðasiglingamálastofnuninni eru landlukt lönd. Þetta eru Afganistan, Andorra, Bútan, Botsvana, Búrkína Fasó, Búrúndí, Esvatíní, Kirgistan, Laos, Lesótó, Liechtenstein, Malí, Mið-Afríkulýðveldið, Níger, Rúanda, Suður-Súdan, Tadjikistan, Tjad og Úsbekistan. Míkrónesía er ekki aðili að stofnuninni, þrátt fyrir að vera bæði eyríki og aðili að Sþ, og Taívan er ekki aðili, og ekki heldur aðili að Sþ.
Samningar
[breyta | breyta frumkóða]Alþjóðasiglingastofnunin hefur umsjón með um 30 alþjóðasamningum, auk reglugerða og staðla sem fjalla um öryggi á sjó, auðvelda viðskipti milli strandríkja og vernda umhverfið.[14] Þekktasti samningurinn sem stofnunin hefur umsjón með er Alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS). Þá má nefna Alþjóðasamning um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun og samstarf þar um (ORPC) og Alþjóðlega olíumengunarbótasjóðinn (IOPC). Alþjóðasiglingastofnunin fer auk þess með nokkra samninga sem á eftir að fullgilda, eins og HNS-samþykktina um flutning spilliefna og Naíróbí-samþykktina um förgun skipsflaka.
Stofnunin gefur reglulega út endurskoðaðar reglugerðir, sem eru lögfestar af aðildarríkjum hennar, eins og til dæmis Alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó. Hún hefur líka samið staðla fyrir hafnarríkiseftirlit, sem gefur strandgæslu og hafnaryfirvöldum leyfi til eftirlits með skipum á öðrum fána en eftirlitsríkisins sjálfs, og byggist á samkomulagi milli aðildarríkja.
Helstu samningar, staðlar og reglur
[breyta | breyta frumkóða]- MARPOL 73/78
- SOLAS-samþykktin
- STCW-samþykktin um þjálfun og vaktstöður áhafna skipa
- Alþjóðlega merkjabókin (ICS)
- Alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó (COLREGs)
- HNS-samþykktin um flutning spilliefna
- Alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar
- Alþjóðasamningur um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar
- BWM-samningurinn um kjölfestuvatn
Aðalritari
[breyta | breyta frumkóða]Núverandi aðalritari stofnunarinnar er Arsenio Dominguez frá Panama sem var kosinn til fjögurra ára á allsherjarþingi stofnunarinnar í júlí 2023. Hann tók við embætti 1. janúar 2024.
Nafn | Land | Embættistími |
---|---|---|
Ove Nielsen | Danmörk | 1959-1961 |
William Graham[15] | Bretland | 1961-1963 |
Jean Roullier | Frakkland | 1964-1967 |
Colin Goad | Bretland | 1968-1973 |
Chandrika Prasad Srivastava | Indland | 1974-1989 |
William O'Neil | Kanada | 1990-2003 |
Efthymios Mitropoulos | Grikkland | 2004-2011 |
Koji Sekimizu | Japan | 2012-2015 |
Kitack Lim | Suður-Kórea | 2016-2023 |
Arsenio Dominguez | Panama | 2024- |
Nefndir
[breyta | breyta frumkóða]Alþjóðasiglingamálastofnunin vinnur verkefni sín í fimm föstum nefndum[2] sem eru:
- Siglingaöryggisnefnd
- Sjávarumhverfisverndarnefnd
- Laganefnd
- Tæknisamstarfsnefnd
- Nefnd um auðveldun skipasiglinga
Af þessum fimm nefndum er siglingaöryggisnefndin sú elsta og helsta.
Tvær fyrstu nefndirnar styðjast við sérhæfðar undirnefndir sem fjalla um einstaka þætti þvert á verkefni þeirra. Frá 2013 hafa þessar undirnefndir verið sjö talsins:
- Undirnefnd um mannlega þáttinn, þjálfun og vaktstöður
- Undirnefnd um útfærslu regluverks stofnunarinnar
- Undirnefnd um leiðsögu, samskipti og leit og björgun
- Undirnefnd um mengunarvarnir og mengunarviðbrögð
- Undirnefnd um hönnun og smíði skipa
- Undirnefnd um tækni og búnað skipa
- Undirnefnd um flutning farms og gáma
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Member States“. IMO. Sótt 4. janúar 2021.
- ↑ 2,0 2,1 „Structure of IMO“. imo.org. Alþjóðasiglingamálastofnunin. Sótt 18. janúar 2021.
- ↑ „Member States, IGOs and NGOs“. IMO. Sótt 4. janúar 2021.
- ↑ Sekimizu, K. (2012). International Maritime Organization: 100 Years After the Titanic. Coast Guard Journal of Safety & Security at Sea, Proceedings of the Marine Safety & Security Council, 69(2).
- ↑ NN (1978). Alþjóðasiglingamálastofnunin IMCO. Siglingamál 9. s. 10-16. (Tímarit.is)
- ↑ Wells, P. G. (2017). The iconic Torrey Canyon oil spill of 1967-Marking its legacy. Marine Pollution Bulletin 115 (1-2).
- ↑ „International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978“. imo.org. Alþjóðasiglingamálastofnunin. Sótt 15-1-2021.
- ↑ Andrew Craig-Bennett (22. september 2020). „Why the IMO should move its HQ from London to Singapore“. splash247.com. Sótt 18. janúar 2021.
- ↑ Shailaja A. Lakshmi (12. september 2018). „IMO Open House For London Visitors“. marinelink.com. Sótt 18. janúar 2021.
- ↑ Long, R. (2019). The World Maritime University—Sasakawa Global Ocean Institute: A New Institute in a Unique University. Ocean Development & International Law, 50(2-3), 225-234.
- ↑ Eski, Y., & Carpenter, A. (2013). Policing in EU Seaports: Impact of the ISPS Code on port security post 9/11. Í O'Neill, M, Swinton, K and Winter, A, (ritstj.) New Challenges for the EU Internal Security Strategy. Cambridge Scholars Publishing. s. 71-93.
- ↑ Cames, M., Graichen, J., Siemons, A., & Cook, V. (2015). Emission reduction targets for international aviation and shipping. Policy Department A: Economic and Scientific Policy, European Parliament, B-1047 Brussels.
- ↑ Hahn, A., Bolles, A., Fränzle, M., Fröschle, S., & Park, J. H. (2016). Requirements for e-navigation architectures. International Journal of e-Navigation and Maritime Economy 5. s. 1-20.
- ↑ „List of IMO Conventions“. imo.org. Alþjóðasiglingamálastofnunin. Sótt 18. janúar 2021.
- ↑ Skipaður í kjölfar andláts Nielsens