Fara í innihald

Ástríkur skylmingakappi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ástríkur skylmingakappi (franska: Astérix gladiateur) er frönsk teiknimyndasaga og fjórða bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1964, en birtist áður sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Pilote frá mars 1962 til janúar 1963. Höfundur hennar var René Goscinny en Albert Uderzo teiknaði. Bókin var gefin út á íslensku árið 1976.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst á því að Hnýsíus Glápíkus, landstjóri Rómverja í Gallíu, ákveður að færa Júlíusi Sesari að gjöf einn íbúa Gaulverjabæjar. Í því skyni lætur hann ræna þorpsskáldinu Óðríki algaulu. Ástríkur og Steinríkur halda til Rómar til að leysa hann úr prísundinni.

Sesar ákveður að varpa skáldinu fyrir ljónin í hringleikahúsinu. Félagarnir gerast því skylmingaþrælar við skylmingaskóla Feitíusar Bollíbusar til að frelsa Óðrík. Þeir hleypa sýningunni í hringleikahúsinu í loft upp, en áhorfendur kunna vel að meta. Sesar gefur skylmingaþrælunum frelsi og Bollíbus fær makleg málagjöld þar sem hann er látinn róa félögunum heim í galeiðu einn síns liðs.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Í bókinni notar Steinríkur í fyrsta sinn orðatiltækið „Rómverjar eru klikk“, sem síðar varð kennisetning hans í bókkaflokknum. Jafnframt tekur hann í fyrsta sinn upp á þeim leik að safna hjálmum þeirra rómversku hermanna sem hann leggur að velli.
  • Kaupmaðurinn Héðinn kaupharði (franska: Epidemaïs) frá Föníku ferjar félagana til og frá Rómarborg. Hann birtist aftur í bókinni Hrakningasaga Ástríks, en gengur þá undir nafninu Farsóttaís.
  • Í Róm hitta Ástríkur og Steinríkur veitingahúsaeigandann Kryddrík (franska: Plaintcontrix). Hann birtist aftur í Ástríki á Korsíku.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Ástríkur skylmingakappi var gefinn út af Fjölvaútgáfunni árið 1976 í íslenskri þýðingu Þorbjarnar Magnússonar.