Gljáheggur
Gljáheggur (fræðiheiti: Prunus serotina) er lauftré af rósaætt. Eftir að tréð hefur laufgast þá blómstrar það með hvítum drjúpandi blómklösum. Tréð myndar steinaldin og eru berin fyrst dökkrauð en breytast í svört á tímabilinu ágúst til október. Tréð byrjar að mynda aldin við um 10 ára aldur og getur aldinmyndun haldið áfram í hundrað ár og steinaldinin spíra auðveldlega. Gljáheggur var fluttur til Evrópu sem skrauttré vegna blómskrúðs og haustlita og til viðarframleiðslu.
Gljáheggur er náskyldur virginíuheggi.
Tréð var flutt úr Nýja heiminum til Evrópu og eru til heimildir um það frá 1629 í Evrópu. Gljáheggur er talin ágeng tegund bæði í Evrópu og í norðurhluta Suður-Ameríku. Aldin, kvistir, börkur og laufblöð gljáheggs og þá sérstaklega þurrkuð eru eitruð fyrir búfé því í þeim er efni sem breytist í blásýru.