Fara í innihald

Gladio-áætlunin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gladio-áætlunin (eftir ítalska orðinu yfir gladius, stutt sverð) var skipulegt samstarf leyniþjónusta Ítalíu (SISMI) og CIA um að koma á fót andspyrnuhópum sem gætu tekið til starfa ef Sovétríkin myndu leggja löndin undir sig. Gladio-áætlunin gekk út á að koma fyrir leynilegum vopnabúrum, sjúkrahúsum og annarri aðstöðu og þjálfa hópa fólks til að hægt væri að koma undan mikilvægum stjórnmála- og vísindamönnum ef til innrásar kæmi, og vinna gegn hernámsyfirvöldum með undirróðursstarfsemi og hryðjuverkum.

Gladio-áætlunin var gerð árið 1951 þegar Kóreustríðið var hafið og talin var raunveruleg hætta á árás úr austri. Hún var svo leynileg að einungis fáeinir stjórnmálamenn og herforingjar vissu af henni. 1990 viðurkenndi Giulio Andreotti forsætisráðherra tilvist áætlunarinnar opinberlega og aðrir ítalskir stjórnmálamenn, eins og Francesco Cossiga sem var varnarmálaráðherra á árunum 1966-1970, staðfestu orð hans. Talið er að hópar innan áætlunarinnar hafi tekið þátt í að vopna hópa hægriöfgamanna og skipuleggja hryðjuverk á blýárunum 1969-1980.

Svipaðir vopnaðir Stay behind-hópar störfuðu í mörgum Atlantshafsbandalagsríkjum og nokkrum hlutlausum ríkjum. Eftir uppljóstranirnar á Ítalíu var gerð formleg opinber krafa um upplausn allra slíkra hópa, meðal annars af Evrópuþinginu. Opinberar rannsóknir hafa farið fram á starfsemi hópanna í Ítalíu, Sviss og Belgíu.