Annað ráðuneyti Ólafs Thors
Annað ráðuneyti Ólafs Thors, og fyrsta ríkisstjórn lýðveldisins Íslands sem studdist við þingræðislegan meirihluta var gjarnan nefnt Nýsköpunarstjórnin. Togarar sem keyptir voru til landsins að undirlagi ríkisstjórnarinnar voru nefndir nýsköpunartogarar. Markmið stjórnarinnar var að skapa nýjungar í atvinnulífi landsmanna. Stjórnin hafði mikinn gjaldeyri til fjárfestinga, svonefndan stríðsgróða. Á endanum rofnaði stjórnarsamstarfið 10. október 1946 vegna deilna um veru bandarísks hers á Íslandi einkum og sér í lagi á grunni Keflavíkursamningsins. Stjórnin sat þó til 4. febrúar 1947 uns tekist hafði að mynda nýja stjórn.
Sjálfstæðisflokkur leiddi stjórnarsamstarfið með Alþýðuflokki og Sósíalistaflokki. Þetta var fyrsta aðkoma sósíalista að ríkisstjórn Íslands. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Pétur Ottesen, Jón Sigurðsson á Reynistað, Þorsteinn Þorsteinsson, Gísli Sveinsson og Ingólfur Jónsson voru í stjórnarandstöðu enda var þeim ekkert gefið um að vinna með sósíalistum.
Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, var forsætis- og utanríkisráðherra. Pétur Magnússon, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var fjármála- og viðskiptaráðherra. Áki Jakobsson, Sósíalistaflokki, var sjávarútvegsráðherra; hann fór einnig með flugmál. Brynjólfur Bjarnason, formaður miðstjórnar Sósíalistaflokksins, var menntamálaráðherra. Emil Jónsson, Alþýðuflokki, var samgöngu- og iðnaðarmálaráðherra; hann fór einnig með kirkjumál. Finnur Jónsson, Alþýðuflokki, var dóms- og félagsmálaráðherra; hann fór einnig með verslunarmál.