Hrafn Oddsson
Hrafn Oddsson (um 1225 – 22. nóvember 1289) var íslenskur goðorðsmaður, hirðstjóri og riddari á Sturlungaöld.
Hrafn var af ætt Seldæla, elsti sonur Odds Álasonar á Söndum, sem Órækja Snorrason drap, og konu hans Steinunnar, dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar. Hann bjó fyrst á Eyri í Arnarfirði en síðar á Sauðafelli, í Stafholti og seinast í Glaumbæ í Skagafirði. Hann var í liði Þórðar kakala í Flóabardaga og var á skipi með Svarthöfða Dufgussyni, mági sínum.
Hann kvæntist Þuríði (um 1228 – 1288), dóttur Sturlu Sighvatssonar og Solveigar Sæmundardóttur árið 1245 og settust þau að á Sauðafelli í Dölum. Þá var Kolbeinn ungi fallinn frá, Þórður kakali hafði náð völdum og Hrafn gat fengið hluta af mannaforráðum Sturlu í Dalasýslu. Þegar Þórður fór til Noregs 1250 skipti hann umsjón með veldi sínu á milli stuðningsmanna sinna og réðu þeir Hrafn, Sturla Þórðarson og Þorleifur Þórðarson í Görðum fyrir Vesturlandi. Þegar Þorgils skarði kom til landsins 1252 kom til átaka um völd á milli hans, Hrafns og Sturlu.
Hrafn var boðinn til brúðkaups Ingibjargar Sturludóttur og Halls Gissurarsonar á Flugumýri haustið 1253 en þegar hann kom í Skagafjörð kom sendimaður Eyjólfs ofsa, svila hans, og sagði honum frá því að fyrirhugað væri að fara að Gissuri og vildi fá hann til að vera með. Hrafn neitaði og reyndi að hafa brennumenn ofan af áforminu en sagði heldur ekki Gissuri frá nema undir rós. Hann var kominn til Hóla þegar brennan var en hitti brennumenn þar á eftir og fór með þeim þaðan til Eyjafjarðar.
Hrafn og Gissur sættust vorið 1254 en Gissur sagði seinna að hann vissi ekki hvað hefði hlíft Hrafni á þeim fundi því hann hefði áður verið ákveðinn í að meiða hann, blinda eða gelda. Gissur fór út þá um sumarið en um veturinn fóru svilarnir Hrafn og Eyjólfur ofsi að Oddi Þórarinssyni í Geldingaholti, sem Gissur hafði sett yfir Norðurland, og drápu hann. Þorvarður Þórarinsson bróðir Odds og Þorgils skarði söfnuðu liði og börðust við betur búið og fjölmennara lið Odds og Eyjólfs á Þveráreyrum í Eyjafirði í júlí 1255. Eyjólfur féll á Þverárfundi en Hrafn flúði og staðnæmdist ekki fyrr en í Skagafirði.
Um 1260 flutti Hrafn sig í Stafholt og hrakti fyrst Snorra son Sturlu Þórðarsonar úr héraðinu og svo Sturlu sjálfan úr landi 1263. Gissur Þorvaldsson og Hrafn sættust endanlega á Alþingi 1262. 1270 gerði Magnús konungur Hrafn og Orm Ormsson Svínfelling handgengna menn sína og hirðstjóra og skipaði þeim allt Ísland en Ormur drukknaði við Noreg sama ár svo að Hrafn var einn hirðstjóri. Hann átti í hörðum deilum við kirkjuvaldið síðustu árin (staðamál síðari) og lét hvergi undan í þeirri baráttu. Árið 1288 fóru þeir Staða-Árni biskup saman til Noregs og þar dó Hrafn árið eftir.
Synir Hrafns og Þuríðar voru þeir Jón korpur í Glaumbæ í Skagafirði og Sturla riddari en dæturnar hétu Hallkatla, Valgerður og Þorgerður.