Maóríar
Maóríar (einnig Maórar; maóríska: Māori, borið fram [ˈmaːɔɾi]) eru frumbyggjar Nýja-Sjálands. Þeir fluttu þangað í bylgjum frá austanverðri Pólýnesíu á kanóum á milli 1250 og 1300. Frumbyggjarnir voru einangraðir í margar aldir og þróuðu þar af leiðandi sína eigin menningu, með eigið tungumál, goðafræði, einkennandi handverkshefðir og sviðslistir. Snemma eftir landnám skiptu Maóríar sér í ættflokka samkvæmt pólýnesískri hefð. Þeir tóku með sér og ræktuðu margar plöntutegundir. Seinna meir þróaðist áberandi stríðsmannamenning.
Koma Evrópubúa til Nýja-Sjálands frá 17. öld umbylti þjóðfélagi Maóría. Margir Maóríar tóku upp vestræna menningu og lífsmynstur. Samskipti milli Maóría og Evrópubúa voru í upphafi vinsamleg og Maóríar undirrituðu Waitangi-samninginn árið 1840 sem færði bresku krúnunni yfirráð yfir eyjunum. Deilur um landeignarrétt komu upp á sjöunda áratug 19. aldar. Samfélagsbreytingar, deilur sem stóðu yfir í áratugi og sjúkdómar sem Evrópubúar komu með tóku sinn toll af Maóríum og þeim fækkaði til muna. Þeir misstu mikinn hluta lands síns og þjóðfélagi þeirra hnignaði. Maóríum fór þó aftur að fjölga í byrjun 20. aldar. Leitast hefur verið við að láta rödd Maóría heyrast í nýsjálensku samfélagi og ná fram samfélagslegu réttlæti. Upp úr 1960 hófst endurreisn maórískrar menningar sem hefur haldið áfram til þessa dags.
Samkvæmt manntalinu 2013 eru Maóríar um það bil 600.000 á Nýja-Sjálandi sem svarar til 15% af íbúafjölda landsins. Maóríar eru annað stærsta þjóðarbrot Nýja-Sjálands á eftir Evrópubúum (Pākehā). Auk þess búa um það bil 120.000 Maóríar í Ástralíu. Um það bil fimmtungur Maóría talar enn maórísku (Te Reo Māori) en það svarar til 3% af íbúafjölda Nýja-Sjálands. Margir Nýsjálendingar nota maórísk orð og orðatiltæki þegar þeir tala ensku, svo sem kia ora. Maóríar taka virkan þátt í öllum sviðum nýsjálensks samfélags og eiga meðal annars fulltrúa í fjölmiðlum, stjórnmálum og íþróttum.
Hlutfallslega margir Maóríar eiga við efnahagsleg og félagsleg vandamál að stríða. Lífslíkur þeirra og meðaltekjur eru töluvert lægri en hjá öðrum hópum á Nýja-Sjálandi. Maóríar þjást af hærri tíðni afbrota, heilsuvandamála og undirmálsárangurs í menntakerfinu en aðrir hópar. Félagslegum umbótum hefur verið komið á til að reyna að minnka bilið milli Maóría og annarra Nýsjálendinga. Einnig er verið að vinna í bótum fyrir söguleg rangindi.