Tóbak er unnið er úr blöðum tóbaksjurtarinnar (Nicotiana tabacum). Virka efnið í tóbaki er nikótín og veldur það fíkn. Auk þess er mikill fjöldi annarra efnasambanda og eru mörg þeirra krabbameinsvaldar. Tóbaks er yfirleitt neytt með því að reykja það sem píputóbak eða í vindlum eða sígarettum. Einnig má neyta tóbaks með því að tyggja það (skro, munntóbak), taka það í vörina eða sjúga það inn í gegnum nefið (neftóbak). Tóbaksneysla á uppruna sinn meðal indíána í Nýja heiminum en neysla þess breiddist hratt út um allan heim eftir landafundina á 15. öld. Litið er á tóbaksreykingar sem meiri háttar heilbrigðisvandamál vegna þess hve það er stór áhrifaþáttur í tíðni krabbameins auk ýmissa öndunarfæra- og hjartasjúkdóma.

Jón Grunnvíkingur fræðimaður safnaði m.a. tóbaksvísum. Ein þeirra er þannig:

Tóbakið, sem tíðkar þjóð,
temprast má það vel með kurt.
Það er að vísu gáfan góð,
guði sé lof fyrir slíka jurt.
(höfundur ókunnur).

Hallgrímur Pétursson samdi nokkrar tóbaksvísur. Ein þeirra hljóðar þannig:

Tóbakið hreint,
fæ gjörla ég greint,
gjörir höfðinu létta,
skerpir vel sýn,
svefnbót er fín,
sorg hugarins dvín.
Sannprófað hefi ég þetta.

Og önnur:

Tóbak nef neyðir,
náttúru eyðir,
upp augun breiðir,
út hrákann leiðir,
minnisafl meiðir,
máttleysi greiðir
og yfirlit eyðir.

Tengill

breyta