Giulio Andreotti
Giulio Andreotti (f. 14. janúar 1919 – 6. maí 2013) var ítalskur stjórnmálamaður, margsinnis forsætisráðherra Ítalíu fyrir kristilega demókrata og einn af valdamestu mönnum ítalskra stjórnmála frá stríðslokum. Hann var dæmdur fyrir tengsl við ítölsku mafíuna árið 2002 en kom sér undan endanlegum dómi, meðal annars vegna takmarkana á tímalengd sakastöðu, þótt dómstólar hafi staðfest að þessi tengsl hafi verið raunveruleg og að hann hafi nýtt sér þau til að styrkja stjórnmálaferil sinn. Í upphafi stjórnmálaferils síns var hann nátengdur stofnanda kristilega demókrataflokksins, Alcide De Gasperi. Hann sat óslitið á þingi frá stofnun lýðveldisins og varð sjö sinnum forsætisráðherra:
- 17. febrúar 1972 - 26. febrúar 1972
- 26. júní 1972 - 12. júní 1973
- 29. júlí 1976 - 16. janúar 1978
- 11. mars 1978 - 31. janúar 1979
- 20. mars 1979 - 31. mars 1979
- 22. júlí 1989 - 29. mars 1991
- 12. apríl 1991 - 24. apríl 1992
Þann 24. október 1990 viðurkenndi hann opinberlega tilvist Gladio-áætlunarinnar, leynilegrar baráttu á vegum NATO gegn kommúnisma á Ítalíu, sem meðal annars er talin hafa staðið fyrir hryðjuverkum til að koma í veg fyrir að kommúnistaflokkur Ítalíu kæmist í ríkisstjórn. Við það tækifæri hélt hann því fram að hliðstæðir hópar hefðu verið til í mörgum Vestur-Evrópuríkjum, sem hefur síðar komið á daginn.
Síðasta ríkisstjórn hans féll í skugga rannsóknar á spillingu í ítölskum stjórnmálum (Mani pulite) sem hófst árið 1992 og hann varð síðasti forsætisráðherra kristilegra demókrata, þar sem flokkurinn lagðist af í kjölfar rannsóknarinnar.
Árið 2002 var hann dæmdur fyrir að hafa fyrirskipað morð á blaðamanninum Mino Pecorelli sem var að rannsaka tengsl hans við mafíuna árið 1979. Hann var þó síðar sýknaður vegna tímatakmarkana á sakastöðu.
Fyrirrennari: Emilio Colombo |
|
Eftirmaður: Mariano Rumor | |||
Fyrirrennari: Aldo Moro |
|
Eftirmaður: Francesco Cossiga | |||
Fyrirrennari: Ciriaco De Mita |
|
Eftirmaður: Giuliano Amato |