Eimskipafélag Íslands

(Endurbeint frá Eimskip)

Eimskipafélag Íslands er alþjóðlegt skipaflutningafélag með 55 skrifstofur í 20 löndum og fjórum heimsálfum; Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku og Asíu. Eimskip sérhæfir sig í alþjóðlegri vöruflutningaþjónustu um allan heim með áherslu á frysti og kælivörur.[1] Félagið starfrækir einnig öflugt net vöruflutninga á Íslandi undir nafninu Flytjandi og dótturfyrirtækið Sæferðir sem gerir út farþegaflutningaferjurnar Baldur og Særúnu. Eimskip var stofnað 17. janúar 1914 með útgáfu hlutabréfa þar sem fjölmargir Íslendingar gerðust stofnfélagar og var félagið kallað "óskabarn þjóðarinnar".[2]

Eimskipafélag Íslands hf
Rekstrarform Hlutafélag á aðalmarkaði Nasdaq Iceland OMX: ICE90274
Slagorð Yfir hafið og heim
Stofnað 17. janúar 1914
Staðsetning Sundabakka 2, 104 Reykjavík, Ísland
Lykilpersónur Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri
Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður
Lárus L. Blöndal, varaformaður
Guðrún Blöndal, stjórnarmaður
Ólöf Hildur Pálsdóttir, stjórnarmaður
Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarmaður
Starfsemi Flutningaþjónusta
Heildareignir € 536 milljónir (2020)
Tekjur € 668 milljónir (2020)
Hagnaður f. skatta € 8,77 milljónir (2020)
Hagnaður e. skatta € 4,45 milljónir (2020)
Eiginfjárhlutfall 43% (2020)
Dótturfyrirtæki 62 (2020)
Starfsfólk 1.619 (2020)
Vefsíða www.eimskip.is
Brúarfoss í smíðum 2019
Brúarfoss í smíðum árið 2019
Fyrstu hlutabréf Eimskipafélags Íslands árið 1914
Fyrstu hlutabréf Eimskipafélags Íslands árið 1914

Undirbúningur að stofnun félagsins hófst árið 1912 og mynduð var bráðabirgðastjórn undir forystu Thors Jensen sem hóf undirbúning að hlutabréfasöfnun og kaupum á skipi. Um 14.000 manns, sem þá voru 15% landsmanna, gerðust stofnfélagar í félaginu auk Vestur-Íslendinga og landsjóðs. Fyrsti formaður stjórnar var Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands. Tvö ný skip voru keypt fyrir félagið; Gullfoss og Goðafoss, bæði smíðuð í Kaupmannahöfn.

Hlutur Vestur-Íslendinga var árið 1964 lagður í sérstakan sjóð, Háskólasjóð, og því komið þannig fyrir að arður af hlutabréfunum rynni til Háskóla Íslands en stjórn Eimskipafélagsins færi með þau atkvæði sem hlutabréfin fólu í sér. Með þessum hætti, og með þeirri reglu að einungis skyldi kosið um helming stjórnar á hverjum aðalfundi, tókst hópi hluthafa sem áttu minnihluta í Eimskipafélaginu að halda í stjórn þess um áratuga skeið.

Árið 1989 varð Eimskip mjög umsvifamikið á íslenskum fyrirtækjamarkaði og tengdist öðrum stórum fyrirtækjum eignaböndum. Þar með bætti Eimskip við sig fjárfestingastarfsemi og var markmiðið að ná arðbærri fjárfestingu í starfsemi sem gæti stutt við aðalstarfsemi félagsins. Burðarás hf. var stofnað til að halda utan um eignarhald verðbréfa félagsins og varð Eimskipafélagið þannig ein af stoðum kolkrabbans svokallaða. Eimskip var því með tvær stoðir; kjarnastarfsemi sem flutningafélag og fjárfestingastarfsemi. Þriðja stoðin, sjávarútvegur bættist við árið 2002.

Eigendaskipti áttu sér stað árið 2003 þegar feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson eignuðust meiri hluta Eimskips. Tveim árum seinna eignaðist eignarhaldsfélagið Avion Group Eimskipafélagið, og Burður hf. var selt út úr Eimskip. Eimskip hélt áfram að vera umfangsmikið í kaupum á félögum þetta ár og fjárfesti í norska frysti- og kæliflutningafélaginu CTG, landflutningafélagi í Færeyjum og síðla árs tók fyrirtækið yfir rekstri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Árið 2019 tók Vestmannaeyjabær við rekstri Herjólfs. Fjárfestingar Eimskips jukust enn frekar árið 2006 þegar Eimskip varð stærsla frystigeymslufyrirtæki í heimi eftir kaup á 72 hitastýrðum geymslum í Norður- og Suður-Ameríku og Ástralíu.

Fjármálahrunið 2008 lék Eimskip grátt þegar 20 þúsund hluthafar töpuðu öllu. Endurskipuleggja þurfti rekstur félagsins og eignuðust lánveitendur og fjárfestingafélagið Yucaipa Eimskip af fullu.

Árið 2009 var félagið lagt niður og nafnið flutt á nýja kennitölu[4].

Reksturinn batnaði og skilaði félagið hagnaði árið 2010. Það ár voru tvö ný gámaskip sett í smíði, siglingakerfi stækkað og félagið var svo skráð á markað árið 2012.[3]

Aldarafmæli Eimskips var fagnað árið 2014 með veglegum hátíðahöldum, en hápunktarnir voru afmælishátíð í Eldborgarsal Hörpu, útgáfa sögu Eimskipafélagsins, sýning heimildarmyndar um félagið í Ríkissjónvarpinu og móttaka á nýju skipi félagsins, Lagarfossi. Dótturfélagið Faroe Ship fagnaði 95 ára afmæli og haldið var upp á 10 ára starfsafmæli Eimskips í Kína. Eimskip hóf samstarf við hafnaryfirvöld í Qingdao um rekstur 55 þúsund tonna frystigeymslu og ákveðið var að reisa 10.000 tonna frystigeymslu í Hafnarfirði.[2]

Eimskip tók á móti nýjum og umhverfisvænum skipum árið 2020, þeim Dettifossi og Brúarfossi sem sigla í samstarfi við grænlenska skipafélagið Royal Artic Line milli Íslands, Grænlands, Færeyja og Skandinavíu.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. Eimskipafélag Íslands (2021). „PRESENTATION OF 2020 RESULTS“ (PDF). Eimskipafélag Íslands.
  2. 2,0 2,1 Eimskipafélag Íslands (2020). „Saga Eimskips“. Eimskipafélag Íslands.
  3. 3,0 3,1 Eimskipafélag Íslands Í 100 ár. 2014.
  4. Íslands, Hf Eimskipafélag (2. júlí 2009). „Héraðsdómur Reykjavíkur veitir Hf. Eimskipafélagi Íslands heimild til að leita nauðasamning“. GlobeNewswire News Room (enska). Sótt 22. nóvember 2021.
  5. Eimskipafélag Íslands (Maí 2020). „Samstarf Eimskips og Royal Arctic Line að hefjast“. Eimskipafélag Íslands.

Tenglar

breyta
   Þessi fyrirtækjagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.